Breska fjármálaeftirlitið FSA (Financial Services Authority) sektaði í mánuðinum hinn breska legg bandaríska fjárfestingarbankans JP Morgan um 33,3 milljónir sterlingspunda, sem er jafnvirði um 6,4 milljarða íslenskra króna. Sektin hefði verið enn hærri ef bankinn hefði ekki sjálfur vakið athygli FSA á yfirsjóninni og fallist á að gera út um hana með þessum hætti.

Þetta er langhæsta sekt, sem breska fjármálaeftirlitið hefur lagt á nokkra fjármálastofnun frá stofnun, 1997.

JP Morgan hefur vel efni á því að borga sektina, en hún rýrir álit bankans, sem hefur komið einna best út úr fjármálakreppunni af hinum gömlu risum alþjóðlega bankakerfisins.

FSA undirstrikaði að bankinn hefði freklega brotið reglur um aðskilnað á fjármunum bankans og viðskiptavina hans. Þó svo að engir viðskiptamannanna hafi tapað fjármunum sínum, þá stóð bankinn rangt að málum og fjármunirnir hefðu glatast ef bankinn hefði fallið. Sektarfjárhæðin var miðuð við 1% af meðaltali þeirra fjármuna, sem í hættu voru, en þeir námu frá 1,3 milljörðum til 15,7 milljörðum sterlingspunda á sjö ára tímabili, frá 2002 til 2009.

Þessi langi tími hefur vakið furðu margra og ýmsir hafa lýst efasemdum um að þarna hafi aðeins verið um mistök að ræða. Gera þeir því skóna að á dögum lánabólunnar miklu hafi fjárfestingarbankar einfaldlega látið slíkar varúðarreglur lönd og leið. Meðan lánabólan hélt áfram að tútna út virtust allir geta grætt, vextir voru þannig í laginu að áhætta virtist útlæg og regluverðir höfðu ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við vinnubrögðin.

Engum blandast hugur um að þessi háa sekt er hugsuð öðrum til viðvörunar og til marks um að regluverkið muni harðlega refsa hverjum þeim, sem ekki fer í einu og öllu eftir reglum um hvernig fjármálastofnanir skuli fara með fjármuni viðskiptavina sinna.

Miðað við að sektin er fyrir yfirsjón, en ekki misferli, þykir hún einstaklega há. Í fermílunni City, fjármálahverfi Lundúna, gætir enda nokkurs óróa og tryggingar bankanna hækkuðu. Víst er að í öllum bönkum hafa menn farið yfir bækurnar með stækkunargleri í framhaldinu. Hins vegar tóku menn eftir því að FSA nefndi ekki eða sektaði neinn af stjórnendum bankans, líkt og er vaninn.