Vladimír Pútín forseti Rússlands er valdamesti maður heims. Þetta er mat bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes.

Næst á eftir Pútin er Angela Merkel kanslari Þýskalands. Hún var áður í fimmta sæti.

Athygli vekur að Barack Obama er aðeins í þriðja sæti, en tímaritið rökstyður þetta með því að Pútin ráði ferðinni í Miðausturlöndum og Merkel leiki stærra hlutverk í stjórnmálunum en Obama. Að auki hyllir undir lok forsetatíðar Obama, en hann hefur allan sinn tíma sem forseti verið í fyrsta eða öðru sæti á listanum.

Frans páfi er fjórði valdamesti maður heims samkvæmt listanum og Xi Jinping, forseti Kína, er fimmti og hefur fallið um tvö sæti milli ára.

Bill Gates stofnandi Microsoft er sjötti og Janet Yellen seðlabankastjóri Bandaríkjanna er í sjöunda sæti.

David Cameron forsætisráðherra Bretlands er í áttunda sæti, Narenda Modi forsætisráðherra Indlands í níunda og Larry Page stjórnarformaður Google, er tíundi valdamesti maður í heimi að mati Forbes.

Hér má sjá listann í heild.