Landsframleiðsla á öðrum ársfjórðungi jókst um 7,3% að raungildi frá sama fjórðungi á síðasta ári en vöxturinn skýrist einkum af aukinni einkaneyslu og fjármunamyndun samkvæmt frétt Hagstofunnar .

Hafa ber þó í huga að landsframleiðsla dróst saman um 10,5% á öðrum fjórðungi 2020. Landsframleiðsla á öðrum ársfjórðungi 2021 mælist því enn 4% minni að raungildi en hún var á öðrum fjórðungi 2019.

Þjóðarútgjöld, samtala neyslu og fjárfestingar, jókst um 9,4% að raungildi á öðrum ársfjórðungi. Vöxtur í einkaneyslu mældist 8,5%, vöxtur samneyslu 2,6% og vöxtur í fjármunamyndun 25,9%. Heildarfjármunamyndun atvinnuvega jókst um 41,9% á milli ára sem skýrist að stóru leyti af 300% aukningu milli ára í fjárfestingu í skipum og flugvélum.

„Umtalsverð aukning“ mældist í bæði inn- og útflutningi, nánar tiltekið 32,8% vöxtur í innflutningi og 27,9% vöxtur í útflutningi. Framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt á tímabilinu þar sem vöxtur innflutnings var meiri en útflutnings. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 30,5 milljarða króna á tímabilinu. Þar af var vöruskiptajöfnuðu neikvæður um 55,7 milljarða og þjónustujöfnuður jákvæður um 25,2 milljarða.

Jafnframt hefur Hagstofan birt bráðabirgðatölur fyrir árið 2020 en samkvæmt þeim dróst landsframleiðsla saman um 6,5% á síðasta ári, en Hagstofan hafði áætlað að samdrátturinn væri 6,6%.

Mynd tekin af vef Hagstofunnar.