Áætluð landsframleiðsla á fyrsta ársfjórðungi jókst um 8,6% að raungildi frá sama tímabili í fyrra, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Miðað við árstíðaleiðréttar tölur jókst landsframleiðslan um 1,1% á milli fyrsta ársfjórðungs 2022 og síðasta fjórðungs 2021.

Að teknu tilliti til birgðabreytinga jukust þjóðarútgjöld um 11,2% að raungildi, einkaneysla um 8,8%, samneysla um 1,5% og fjármunamyndun um 20,3%.

Heildarfjármunamyndun atvinnuvega jókst um 38,3% á tímabilinu en án fjárfestingar í skipum, flugvélum og stóriðjutengdri starfsemi mældist vöxturinn 19,4%. Fram kemur að munurinn skýrist einkum af umtalsverðum fjárfestingum í flugvélum á tímabilinu.

Aukin einkaneysla er sögð skýrast að umtalsverðu leyti af auknum ferðalögum og neysluútgjöldum Íslendinga erlendis. Einnig hafi verið umtalsverð aukning í kaupum heimila á nýjum bifreiðum. Samdráttur mældist í neysluflokkum á borð áfengi, húsbúnaði og innréttingum.

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var neikvætt á tímabilinu en áætlaður halli af vöru- og þjónustuviðskiptum var 25,4 milljarðar á fyrstu þremur mánuðum ársins.

„Viðsnúningur í efnahagslífinu leiddi til mikillar atvinnuaukningar á árinu 2021 og hélt sú þróun áfram á 1. ársfjórðungi 2022. Heildaratvinna, mæld í fjölda vinnustunda, jókst um 7,5% frá sama tímabili fyrra árs og starfandi einstaklingum fjölgaði um 8,2% á sama tímabili.“