Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur boðað til atkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna um verkfall  þeirra sem heyra undir kjarasamning sem félagið á við Samtök atvinnulífsins vegna veitinga-,gisti-,þjónustu og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi. Þetta kemur fram á vef verkalýðsfélagsins.

Atkvæðagreiðslan mun hefjast 29. mars og og standa til 5. apríl. Ef kosning um verkfall verður samþykkt mun allsherjaverkfall þeirra sem heyra undir áðurnefndan kjarasamning skella á 12. apríl. Verkalýðsfélag Akraness mun auglýsa kosninguna og önnur útfærsluatriði þegar nær dregur kosningunni samkvæmt frétt á vef félagsins.

Verkfall Eflingar meðal starfsfólks við hreingerningar hótela á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þann 8. var samþykkt í atkvæðagreiðslu sem lauk í gærkvöldi. Efling og VR hyggjast tilkynna frekari verkfallsaðgerðir í dag samkvæmt yfirlýsingu frá Eflingu. Þá á félagsdómur eftir að fjalla um hvort verkfallsboðun Eflingar hafi verið lögleg en Samtök atvinnulífsins kærðu boðun verkfallsins.