Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, sagði í viðtali við Financial Times í gær að hin fljótandi íslenska króna væri óviðunandi og að skoðað yrði að festa gengi hennar við gengi annarra gjaldmiðla, þá líklegast evruna eða breska pundið.

Benedikt sagði óbreytt ástand óviðunandi og mikilvægt að ráðast í aðgerðir sem hafa það að markmiði að tryggja stöðugri gjaldmiðil fyrir landið. Ekki væri fýsilegt að vera með gjaldmiðil sem hafi sveiflast um 10% á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan hin nýja ríkisstjórn tók við völdum. Lýsti hann stöðugleika krónunnar sem næsta stóra verkefni landsins.

Fráleitt að tengja krónuna við Kandadollar eða norsku krónuna

Í viðtalinu hafnar Benedikt fyrri hugmyndum um að æskilegt sé að tengja krónuna við Kanadadollar eða norsku krónuna og lýsir þeim tillögum sem fráleitum. Lykilatriði sé að tengja krónuna við gjaldmiðil sem notaður er í okkar helstu viðskiptalöndum.