Stjórn og fulltrúaráð VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna fundaði í gærkvöldi og sendi frá sér neyðarkall til stjórnvalda um tafarlausar aðgerðir til lausnar þeim bráða vanda sem heimili og fyrirtæki standa frammi fyrir. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, segir að stjórnvöld verði að taka af skarið. Gera aðgerðaráætlun þar sem menn einbeiti sér að bráðavandanum og víki til hliðar verkefnum sem leysa megi síðar.

„Ef ekkert verður farið að gerast um mánaðamótin október nóvember, þá fara menn að missa móðinn upp til hópa.

Það virðist vera orðið erfitt hjá mönnum að „fókusera” á hvað séu aðalatriði og hvað aukaatriði. Það eru svo margar hugmyndir í gangi í einu að það gerist ekki neitt. Enginn virðist hafa tíma til að sinna einu eða neinu og það fer ekkert í gegn og skeður ekki neitt. Það þarf einhverjar raunhæfar lausnir.”

Guðmundur bendir á að hann sitji nú í nefnd sem eigi að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið. Formaður þeirra nefndar er jafnframt formaður fjárlaganefndar. „Á sama tíma og fjárlaganefnd er á fullu að vinna við að gera sennilega erfiðustu fjárlög í sögu íslenska lýðveldisins þá á sama tíma að fara af stað með að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið. Þarna eru menn að grauta í allt of mörgum málum.

Það sem hræðir mig mest að margar af þeim aðgerðum sem verið er að fara í miðist allt við að núllstilla fólk miðað við ástandið í dag. Ef ekki verður einhver uppgangur í efnahagslífinu verður þetta fólk aftur komið í krísu eftir sex mánuði.”

Næg atvinna en samt vandræði

Guðmundur segir að innan raða VM hafi menn verið í einna bestri stöðu hvað atvinnu varðar á undanförnum mánuðum. Samt sé staðan sú að þeir sem hafi verið í góðum málum hvað afborganir skulda varðar séu nú komnir í vandræði.

„Okkar félagsmenn eru flestir með vinnu og þó menn hafi verið að missa vinnu þá hefur verið mikil eftirspurn eftir mönnum í þessari grein. Auðvitað hafa okkar félagsmenn þó orðið fyrir barðinu á niðurskurði og lækkun launa eins og aðrir.”

Dæmið búið um áramót

„Ég hef verið að ræða við menn í okkar röðum sem fóru ekkert fram úr sér í góðærinu. Þegar búið er að skera af því alla yfirvinnu og yfirborganir, þá er þetta fólk núna að lenda í því að vera með 60 til 70 þúsund króna mínus um mánaðamót. Ef þetta fer ekki að snúast við verður dæmið búið hjá þessu fólki um áramótin.”

Segir Guðmundur að lausleg könnun sem gerð hafi verið meðal félagsmanna VM sýni að um 60 til 70% þeirra telji sig ekki muni ná saman endum í rekstri sinna heimila um áramótin.