Samkvæmt niðurstöðum í skýrslu starfshóps um heildarstefnumótun skattlagningar eldsneytis og ökutækja, með það að markmiði að minnka losun koldíoxíðs frá vegasamgöngum, væri sú leið vænlegust til árangurs að minnka skattlagningu á bíla sem losa lítið og auka skattlagningu á bensín og díselolíu.

Skattlagning tengd kolefnislosun

Hópurinn, sem var skipaður fyrir rúmu ári síðan, kynnti niðurstöður sínar á blaðamannafundi í dag. Samkvæmt skipunarbréfi hópsins átti hann að leggja fram tillögur sem miða að því að hvetja til notkunar visvænna ökutækja, orkusparnaðar, minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar innlendra orkugjafa. Auk þess átti hópurinn að hafa í huga að skattlagningin þjóni enn sem fjármögnun uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins og sem almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Hugmyndir starfshópsins ganga í stuttu máli út á það að tengja þær fjórar stoðir skattlagningar ökutækja sem nú eru við kolefnislosun. Þær fjórar stoðir sem talað er um eru vörugjald af ökutækjum, bifreiðagjald, vörugjöld af eldsneyti og olíugjald og kílómetragjald ökutækja sem eru þyngri en 10 tonn.

Þannig myndi í stað vörugjalda á ökutæki koma losunargjald sem miðast við skráða losun koldíoxíðs í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Þannig myndu bílar sem losa minna kolefni verða ódýrari en þeir sem losa mikið verða dýrari. Meðalfólksbíll kæmi út með svipaða skattlagningu og nú er, en skattlagning nú miðast við þyngd ökutækja.

Bifreiðagjald yrði einnig lagt á á grundvelli skráðrar losunar ökutækis í stað þyngdar. Áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna breytinga á vörugjöldum og bifreiðagjöldum er samtals um 1.700 milljónir króna.

Nýr skattur - kolefnisskattur

Lagt er til að nýr skattur verði lagður á eldsneyti, kolefnisskattur, sem miðast við markaðsverð fyrir losun á tonni af koldíoxíði samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Eins og verðið er nú myndi þessi skattur þýða 5 króna hækkun á lítrann af bensíni og 6 krónur á lítra af díselolíu. Áætlaður tekjur ríkissjóðs af kolefnisskatti eru um 1.700 milljónir, en hópurinn hafði það að leiðarljósi að ekki yrði breyting á skatttekjum ríkissjóðs í heildina af ökutækjum og eldsneyti.

Lagt er til að kílómetragjald á ökutæki yfir 10 tonn verði óbreytt en verði innheimt með GPS tækni um leið og sú tækni verður áreiðanlegur grundvöllur skattheimtu. Þannig verður hægt að skattleggja kílómetrann mishátt eftir því hvar ekið er og koma þannig til móts við sjónarmið þeirra sem stunda flutninga á landsbyggðinni.

Tengist ekki mótmælum vörubílstjóra

Á blaðamannafundinum í dag lögðu aðstandendur skýrslunnar áherslu á að hún tengist ekki á nokkurn hátt þeirri umræðu sem átt hefur sér stað nýverið um hvort lækka eigi eldsneytisverð hér á landi. Árni Mathiesen sagði jafnframt að taka yrði tillit til þess að von er á tveimur skýrslum til viðbótar, frá nefnd um almenningssamgöngur og um flutningsjöfnun á landsbyggðinni, og samræma verði þau sjónarmið sem koma fram í þeirri skýrslu með þeim sem fram komu í dag. Að auki verði að taka tillit til þess að aðstæður á heimsmarkaði í dag eru verulega breyttar frá því sem var þegar nefndirnar hófu sín störf. Hann sagðist reikna með að nýtt frumvarp um skattlagningu eldsneytis verði lagt fram þegar þing hefst í haust, þ.e. á því þingi sem hefst 1. október.