Leit grænlenska jarðefnarannsóknafyrirtækisins NunaMinerals A/S á gulli á Suður-Grænlandi lofar góðu. Greint er frá þessu á fréttavef Sermitsiaq og þar sagt að félagið hafi leitað að gulli á fimm stöðum á leyfissvæðinu á Vagar.

„Í það minnsta tvær borholur innihalda gull sem hægt er að greina með berum augum,” segir Ole Christiansen framkvæmdastjóri félagsins.

Forsvarsmenn NunaMinerals íhuga nú hvort haldið skuli á leitarsvæði í Kirkespirdalen nærri bænum Nanatorlik til að taka fleiri sýni. Er það svæði álitið vænlegast.

Fyrirtækið hefur þegar varið 40 milljónum danskra króna í gullleit á þessu ári, þar af 5 milljónum í leit á Grænlandi. Hafa boranir þar staðið yfir í júlí og ágúst. Félagið er skráð á hlutabréfamarkaði OMX stock exchange í Kaupmannahöfn.

Á öðrum stöðum hafa leitarmenn borað í fast berg í leit sinni að gulli, en nú bora þeir í lausan jarðveg á stöðum þar sem náttúran hefur séð um að skola líklegu gulli úr berginu. Í Kirkespirdalen er leitarsvæðið t.d. nálægt Delta ánni.

NunaMinerals hefur sótt um að fá að leita á tveim nýjum svæðum. Annað er 27 ferkílómetra svæði sem kallað er Qassersuaq á eynni Qilanngarsuit um 35 kílómetra suður af höfuðstaðnum Nuuk. Þar fann The National Geological Surveys for Denmark and Greenland (GEUS) vísbendingar um gull í fyrra.

Eyjan Qilanngarsuit liggur á jarðlagabelti sem er hluti af gullleitarsvæði NunaMinerals í Nuuk firði (Nuup Kangerlua). Fyrirtækið fór í samstarf í júní um gullleit á svæðinu með kanadíska fyrirtækinu Nuuk Fjord Gold Mines Ltd. Kanadíska fyrirtækið hyggst fjárfesta um 23 milljón kanadískum dollurum í frekari gullleit á næstu fjórum árum. Með því framlagi mun það eignast 65% hlut í gullvinnslunni.

Hitt leitarsvæðið sem rætt er um er 48 ferkílómetrar og verður hluti af leitarleyfi á Maniitsoq svæðinu.  Þar eru menn þó á höttunum eftir gulli, heldur paltínu. Á því svæði hefur NunaMinerals verið í samstarfi um boranir við Suður-Afríska félagið Implants í sumar. Er niðurstöðu að vænta þar í haust.