Greiningardeild Landsbankans gerir tæplega 12% ávöxtunarkröfu til hlutabréfamarkaðarins og er það lágmarks ávöxtun sem hún gerir til markaðarins á næstu tólf mánuðum.

?Verðmöt okkar, sem standa undir 84% af heildarmarkaðsvirði allra skráðra fyrirtækja, gefa hins vegar tilefni til að ætla að hlutabréfamarkaðurinn geti hækkað um 8,5% umfram þá ávöxtunarkröfu sem við gerum til markaðarins. Verðmötin gefa því tilefni til að ætla að ávöxtun bréfanna verði 20% á næstu 12 mánuðum," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin mælir með að yfirvoga Actavis, Bakkavör Group, Kaupþing banka og Mosaic Fashions. ?Þetta eru þau fyrirtæki sem við teljum eiga mesta innistæðu fyrir hækkun á næstu mánuðum. Félögin eiga það sammerkt að vænt ávöxtun þeirra er um eða yfir 25% á næstu 12 mánuðum og/eða að verðmat okkar á viðkomandi félagi verður líklega uppfært til hækkunar innan fárra vikna," segir greiningardeildin.

Markaðurinn viðkvæmur næstu 3-6 mánuði

Hlutabréfamarkaðurinn er nú mun rólegri en verið hefur og túlkar ekki allar fréttir sem neikvæðar, líkt og á seinni hluta fyrsta ársfjórðungs. ?Þrátt fyrir það voru verðsveiflurnar á öðrum ársfjórðungi miklar. Veltan hefur einnig dregist nokkuð saman og líklegt er að við séum að sigla inn í ákveðna ládeyðu sem gæti varað í nokkra mánuði," segir greiningardeildin.

Ástæða þess er dýrara lánsfjármagn, óvissa um innlenda efnahagsframvindu og að vextir bankareikninga eru í sögulegu hámarki. ?Við teljum þó að aðeins sé um tímabundið ástand að ræða og að langtímahorfur á hlutabréfmarkaðinum séu góðar enda mörg fyrirtækjanna hagstætt verðlögð í dag eins og fram kemur að ofan," segir greiningardeildin.