Geir H. Haarde forsætisráðherra, segir að 6 milljarða dollara lánapakkinn sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leiðir gæti gengið í gegn í þessari viku. Þetta segir í frétt Bloomberg.

Eins greint var frá í gær hefur samkomulag náðst við Breta og Hollendinga í deilunni um Icesave, þess eðlis að íslensk stjórnvöld ábyrgjast lágmarkstryggingu umfram eignir Landsbankans.

Geir segir að þetta þýði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti afgreitt lánið, og búist er að það gerist í vikunni.

Þegar lánið er komið í gegn opnast samstundis fyrir 830 milljón dollara. Búist er við því að Norðurlöndin muni leika lykilhlutverk í því að útvega Íslandi lánsfé. Ísland hefur þegar fengið lánsloforð frá Noregi upp á 635 milljón dollara, ásamt því að Færeyjar mun leggja til 50 milljónir dollara og Pólland 200 milljónir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra segir lánið forsendu þess að íslenska hagkerfið, gjaldeyrismarkaðurinn og viðskiptalífið starfi eðlilega.