Væntingavísitala Gallup lækkaði um 1,4% á milli desember og janúar. Í Vegvísi Landsbankans [ LAIS ] segir að á fyrri hluta árs í fyrra hafi væntingar verið í sögulegum hæðum og að á milli ára hafi þær dregist saman um 10%. Bjartsýni sé þó meiri en svartsýni þar sem vísitalan standi í 116 stigum, en þegar hún er yfir 100 eru fleiri bjartsýnir en svartsýnir.

Væntingar til ástands efnahags- og atvinnumála eftir hálft ár mælast nú undir 100 stigum þriðja mánuðinn í röð, þannig að fleiri eru neikvæðir en jákvæðir á horfur til sex mánaða.