„Nokkuð léttara var yfir landanum nú í nóvember en mánuðinn á undan ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var nú í morgun. Þannig hækkaði vísitalan um tæp 19 stig milli mánaða og gekk því sú mikla lækkun sem varð mánuðinn á undan að hluta til baka.“

Þetta segir í morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Segir að þróunin komi í raun ekki á óvart enda hafi ólgan verið afar sýnileg í október vegna fjárhagslegrar stöðu heimilanna og yfirvofandi niðurskurðar í opinberum rekstri.

„Mælist vísitalan nú 50,6 stig en sem kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins en þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir,“ segir í morgunkorni.

Allar undirvísitölur Væningarvísitölunnar hækkuðu í nóvember frá fyrri mánuði en því var öfugt farið á milli september og október. „Þó vegur þessi  hækkun ekki upp þá lækkun sem átti sér stað síðast og eiga undirvísitölunnar því þó nokkuð í land með að ná sömu gildum og í september. Þó er ljóst að þetta bendir til þess að væntingar neytenda til núverandi ástands í efnahags- og atvinnumálum jafnt og ástandsins eftir sex mánuði eru meiri nú en fyrir mánuði síðan.“

Væntingar til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði hækka mest eða um tæp 29 stig. Þær mælast nú 77,1 stig. Mat á núverandi ástandi hækkar mun minna, eða um tæp 4 stig og mælist 10,8 stig. Breyttar væntingar til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar eftir sex mánuði skýra því hækkunina sem varð á væntingarvísitölunni nú.