Væntingavísitala Gallup mælist nú tæplega 118 stig, sem er hækkun frá því í seinasta mánuði. Vegna sviptinga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum með tilheyrandi lækkun á hlutabréfamörkuðum um allan heim er gildið þó nokkru undir því sem það var lengst af á þessu ári. Neytendur eru svartsýnni á horfur í efnahagslífinu til næsta hálfa ársins en áður. Mat á efnahagslífinu nú batnar, en mat neytenda á vinnumarkaði og atvinnumálum versnar.

Gallup mælir vísitölu fyrirhugaðra stórkaupa ársfjórðungslega og birtir hana með væntingavísitölunni. Vísitalan lækkar lítillega frá síðustu birtu mælingu. Vísitalan þykir gefa góða vísbendingu um með hvaða sniði einkaneysla landsmanna verður næstu mánuði. Merkjanlegur samdráttur er í fyrirhuguðum íbúðakaupum, og aldrei hefur hlutfall þeirra sem hyggja á kaup á nýrri bifreið á næstu sex mánuðum verið jafn lágt.