Heimsmarkaðsverð á hráolíu í framvirkum samningum til afgreiðslu í júlí er nú í kringum 61 dollar tunnan eða svipað og í nóvember 2008. Veðja margir sérfræðingar á að olíuverð haldist svipað áfram þar sem OPEC ríkin muni ekki draga meira úr framleiðslu sinni en orðið er.   Var verðið skráð hjá Brent í London fyrir stundu á 60,63 dollara en 61,42 dollara á NYMEX í New York. Það sem er talið halda uppi olíuverðinu nú eru skemmdarverk á olíuleiðslum Chevron í Nígeríu af hálfu samtaka sem kalla sig Movement for the Emancipation of the Niger Delta. Hefur Chevron staðfest að þessar skemmdir dragi úr þeirra olíuframleiðslu í landinu um 100.000 tunnur á dag.   Ágreiningur er innan OPEC samtaka olíuframleiðsluríkja um hvort draga beri enn frekar úr olíuframleiðslu til að knýja verðið upp á við. Samkvæmt frétt The Economic Times vilja Íranar t.d. að dregið verði úr framleiðslu þar sem þeir telji eðlilegt að olíuverðið fari í 80 dollara á tunnuna.   Saudi Arabar telja aftur á móti óvarlegt að hækka olíuverðið frá því sem nú er vegna efnahagserfiðleikanna í heiminum. Telur olíumálaráðherra landsins ólíklegt að aðildarríkin 12 samþykki að dregið verði úr framleiðslu á fundi OPEC í Vín á fimmtudag. Hefur markaðurinn brugðist við þessum tíðindum með því að hækkunarhrinan að undanförnu hefur nær stöðvast.