Niðurstöður úr nýrri könnun IMG Gallup á stöðu og framtíðarhorfum í atvinnulífinu gefa til kynna að aðstæður í efnahagslífinu séu tiltölulega góðar en þó heldur lakari en í samsvarandi könnun í febrúar.

Stjórnendur sjá fram á versnandi horfur þegar litið er hálft ár fram í tímann varðandi innlenda eftirspurn þótt áfram verði þensla á vinnumarkaði. Könnunin staðfestir á hinn bóginn þá breytingu að hagur útflutningsgreina fer batnandi vegna gengisþróunar undanfarna mánuði. Könnun þessi er gerð ársfjórðungslega fyrir Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum.