Væntingar eru um lækkun stýrivaxta á næsta ári ef marka má fólgna vexti sem lesa má úr vaxtaferlinum hér á landi, segir greiningardeild Glitnis.

?Svo virðist sem reiknað sé með lægri stýrivöxtum snemma á árinu eða strax í febrúarmánuði. Á móti kemur að væntingar virðast vera um að lækkun stýrivaxta verði hófleg og þeir séu enn yfir 12% um mitt næsta ár," segir greiningardeildin.

Hún spáir því að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti um 50 punkta 14. september.

?Meiri óvissa ríkir hins vegar um hvað bankinn gerir 2. nóvember næstkomandi samhliða útgáfu Peningamála, en þá gæti bankinn hugsanlega rökstutt að ekki sé þörf á frekari vaxtahækkun í ljósi minnkandi þenslu," segir greiningardeildin.

?Við reiknum ekki með að bankinn taki að lækka stýrivexti sína fyrr en í mars/apríl á næsta ári, en þá teljum við að bankinn muni lækka þá skarpt og hratt. Teljum við að stýrivextir verði komnir undir 10% fyrir lok næsta árs enda mun draga verulega úr verðbólgu yfir árið 2007 og þar með minnka forsendur bankans fyrir að halda vöxtum háum," segir greiningardeildin.