Sennilega mun gengi krónunnar hækka eða standa í stað fyrri hluta þessarar viku vegna væntinga um vaxtahækkun Seðlabankans á fimmtudag, segir greiningardeild Glitnis.

?Reiknum við með að væntingar séu um 0,50 til 0,75 prósentustiga vaxtahækkun og mun niðurstaðan ráða nokkru um hreyfingar krónunnar í framhaldinu," segir greiningardeildin og telur ekki útlokað að Seðlabankinn hækki vexti sína frekar ?og gefi frá sér harðorð skilaboð varðandi frekari vaxtahækkun."

Við það má búast við skammvinnri gengishækkun. ?Hins vegar virðist sennilegast að gengi krónunnar muni ekki breytast stórlega í vikunni nema ófyrirséðar fréttir berist sem breyti gangi mála," segir greiningardeildin.

Gengislækkun líkleg

Viðskiptahallinn er enn umtalsverður ?og óvissa ríkir um hvort lending hagkerfisins verði hörð eða mjúk," segir greiningardeildin og telur að framboð af gjaldeyri verði lítið á komandi mánuðum.

?Lítið er um erlendar lántökur og fjárfesting erlendra aðila hér á landi eru minnkandi. Gengi krónunnar mun líklega gefa frekar eftir á næstu vikum. Spáum við því að verðgildi krónunnar verði í lágmarki á þriðja ársfjórðungi," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin spáir að evran mun þá tímabundið kosta yfir 100 krónur og dollarinn yfir 80 krónur.
?Hins vegar er sennilegt að gengi krónunnar hækki á ný í lok ársins og á næsta ári þegar merki um aukinn stöðugleika fara að berast - dregur úr viðskiptahalla, verðbólga byrjar að hjaðna og önnur þenslumerki hverfa - og það fer að hilla undir nýtt hagvaxtarskeið byggt á auknum útflutningi og erlendum fjárfestingum," segir greiningardeildin.