Væntingavísitala neytenda í Bandaríkjunum hefur ekki verið lægri en hún var í könnun sem birtar voru niðurstöður úr í gær í 28 ár. Væntingavísitalan er nú 59,8 og hefur ekki verið lægri síðan hún var 58,7 í júní 1980. Hækkandi matvöru- og olíuverð valda mestu verðbólguvæntingum í meira en áratug þar í landi samkvæmt frétt Reuters.

Seðlabanki Bandaríkjanna getur nú að sögn Reuters miðað peningamálastefnu sína við að veikari efnahagsstaða Bandaríkjanna muni koma í veg fyrir verðbólgu, þar sem neytendur neyðast til að halda aftur af óþarfa eyðslu til að eiga fyrir nauðsynjavörum eins og mat og orku. Því gæti bankinn nú lækkað stýrivexti.