Væntingavísitala Gallup í október var birt í morgun, og er vísitalan nú sú lægsta frá því farið var að mæla hana í mars 2001.

Mælist vísitalan nú 58,9 stig, sem er 17 stiga lækkun frá síðasta mánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis en þar kemur fram að sá brotsjór sem gengið hefur yfir íslenskt hagkerfi á undanförnum vikum hefur aukið svartsýni landsmanna, sem horfa nú fram á mikla kaupmáttarskerðingu og óvissar atvinnuhorfur.

Í Morgunkorn kemur fram að undirvísitölur fyrir mat á núverandi ástandi og atvinnuástandinu eru sömuleiðis í langlægsta gildi sínu frá upphafi mælingar.

Væntingar til 6 mánaða eru hins vegar óbreyttar milli mánaða og mat á efnahagslífinu hækkar nokkuð frá september.

Bendir til verulegs samdráttar í einkaneyslu

Greining Glitnis segir lága mælingu Væntingavísitölunnar vera eðlilega í ljósi þess áfalls sem dunið hefur yfir íslenska hagkerfið á undanförnum vikum.

„Hins vegar má segja að landsmenn séu heldur bjartsýnir á að hratt muni rætast úr ástandinu, enda bendir margt til þess að efnahagslægðin sem nú er hafin muni vara út næsta ár hið minnsta,“ segir í Morgunkorni.

„Væntingavísitalan hefur allsterka fylgni við einkaneyslu, og styður lág mæling hennar nú við þá skoðun okkar að einkaneysla muni dragast mikið saman það sem eftir er árs.“