Væntingavísitala Gallup mælist nú 24.3 stig samkvæmt könnun sem birt var í morgun en vísitalan er álíka lág og hún hefur verið síðustu fjóra mánuði eða frá hruni bankanna.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en Greining Íslandsbanka segir það benda til þess að neytendur telji að ástandið hafi lítið sem ekkert skánað á þessu tímabili.

Í september mældist vísitalan 76,2 stig og var því talsvert hærri en hún er nú. Hún hafði þó þá lækkað talsvert frá því sem hún náði hæst á góðæristímabilinu en á fyrri helmingi árs 2007 stóð vísitalan að meðaltali í 143,7 stigum.

Í Morgunkorni kemur fram að ríflega 93% svarenda telja að efnahagsástandið sé slæmt og 72% þeirra telja að atvinnumöguleikar séu litlir.

Þá telja 57% þeirra að efnahagsástandið verði verra eftir sex mánuði og 49% þeirra að atvinnumöguleikarnir verði minni eftir þann tíma. Einnig telja 52% þeirra að heildartekjur þeirra muni lækka á næstu sex mánuðum.

„Svartsýni neytenda endurspeglast vel í neyslu þeirra og fjárfestingum um þessar munir,“ segir í Morgunkorni.

„Mikill samdráttur hefur þannig verið í kortaveltu undanfarið. Tölur um smásöluverslun segja svipaða sögu. Reikna má með að einkaneysla hafi dregist saman um u.þ.b. fimmtung á síðasta fjórðungi nýliðins árs og að samdrátturinn verði jafnvel enn meiri á fyrsta fjórðungi þessa árs. Samdrátturinn í fjárfestingum heimilanna er að líkindum enn meiri.“