Væntingavísitala Gallup lækkaði í janúar eftir hækkun tvo mánuði í röð en mælist 126,5 stig. Vísitalan er hins vegar sögulega há og mun fleiri svarendur voru jákvæðir en neikvæðir, segir greiningardeild Íslandsbanka.

?Athyglisvert er að 20% neytenda telja að efnahagsástandið verði verra eftir hálft ár á móti tæplega 14% sem telja að það verði betra" segir greiningardeildin.

Það hefur dregið lítillega úr væntingum neytenda til efnahagsástandsins í náinni framtíð. Neytendur telja núverandi ástand aðeins síðra en þeir gerðu í desember. Auk þess telja 41% neytenda mikla atvinnumöguleika um þessar mundir en aðeins 16% neytenda telja þá litla.

Tæp 50% neytenda telja efnahagsástandið í landinu gott á móti tæplega 14% sem telja það slæmt.

Mat íslenskra neytenda á núverandi ástandi í efnahags- og atvinnumálum hefur hækkað jafnt og þétt frá fyrri hluta árs 2003 og frá ársbyrjun 2005 hefur mat á núverandi ástandi mælst hærra en væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði.