Væntingavísitala Gallup lækkaði í mars en hún náði hámarki í febrúar, segir greiningardeild Glitnis. Vísitalan mælist 127,7 stig.

Mat neytenda á efnahagslífinu er nú lægra en áður og á það stærstan þátt í lækkun vísitölunnar ásamt því sem dregið hefur verulega úr væntingum þeirra til efnahagslífsins eftir sex mánuði.

Ljóst virðist því að neikvæð umfjöllun um íslenskt efnahagslíf og gengislækkun krónunnar hafi skilað sér í aukinni svartsýni á meðal neytenda þegar horft er til næstu mánaða, segir greiningardeildin.

Vaxandi svartsýni virðist gera vart við sig á meðal neytenda. Nú telja um 30% neytenda að efnahagsástandið verði verra eftir sex mánuði samanborið við tæp 13% sem telja að það verði betra.

Engu að síður telja 17% þeirra að atvinnumöguleikar sínir verði þá meiri en 10% svarenda telja að möguleikar sínir verði minni.

Hins vegar er athyglisvert að mat neytenda á núverandi efnahagsaðstæðum hefur sjaldan verið hærra og endurspeglar það mikinn hagvöxt og lítið atvinnuleysi um þessar mundir, segir greiningardeildin.

Tæp 48% neytenda telja ástandið gott samanborið við tæp 13% aðspurðra sem telja það slæmt.

Að sama skapi eru atvinnumöguleikar miklir að mati 48% neytenda en litlir að mati 16% neytenda.

23% neytenda að tekjur sínar verði meiri eftir sex mánuði en aðeins 8,5% neytenda telja að tekjur sínar verði minni.

Framundan eru aukin viðskipti með íbúðarhúsnæði, bifreiðar og utanlandsferðir, segir greiningardeildin, ef marka má könnun Gallup á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda.