Væntingavísitala viðskiptalífsins í Þýskalandi hækkaði óvænt úr 101,8 í 103,3 í janúar og hefur ekki verið hærri síðan í október 1991, segir greiningardeild Kaupþings banka og bendir á að markaðurinn hafi búist við að vísitalan myndi lækka lítillega.

Ein helsta ástæða betri framtíðarhorfa er veiking evrunnar gagnvart dollaranum, en á seinasta ári lækkaði evran um 13% sem hefur aukið samkeppnishæfni evrópskra vara. Einnig hefur einkaneysla Þjóðverja verið að taka við sér.

Sterkari samkeppnisstaða útflutningsgreina ásamt aukinni einkaneyslu gefa vonir um aukinn hagvöxt í Þýskalandi á þessu ári miðað við síðast liðið ár. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur spáð því að hagvöxtur í Þýskalandi verði 1,5% í ár, sem er talsverð hækkun frá því í fyrra þegar hann var 0,9%, segir greiningardeild Kaupþings banka.