Væntingavísitala þýskra fjárfesta, Ifo vísitalan, mælist 83,7 stig í apríl og hækkar úr 82,2 stigum frá því í mars.

Þetta kemur þýskum fjölmiðlum nokkuð á óvart því á þriðjudag birtu nokkrar hugveitur sameiginlega efnahagsspá sína þar sem gert er ráð fyrir 6% samdrætti á þessu ári. Þá náði Ifo vísitalan 20 ára lágmarki í janúar s.l. þegar hún fór undir 77 stig.

„Fyrirtækin eru ekki lengur örvæntingafull vegna núverandi efnahagsástands líkt og þau hafa verið síðustu mánuði,“ segir Hans-Werner Sinn, framkvæmdastjóri Ifo í samtali við Reuters fréttastofuna.

Sinn segir að hækkun væntingavísitölunnar nú gefi til kynna að jafnvel þótt hagkerfið haldi áfram að dragast saman geti fyrirtækin staðsett sig betur og séð fyrir næstu mánuði, eitthvað sem reyndist ógerlegt í byrjun árs.

Rétt er að taka fram að Þýskaland er stærsta hagkerfi Evrópu og jafnframt stærsti útflutningsríki heims.