Ifo væntingavísitalan þýska, sem byggir á könnun sem gerð er meðal 7.000 þýskra fyrirtækja um mat á núverandi ástandi og væntingum um efnahagsástandið eftir sex mánuði, hækkaði óvænt í mars þriðja mánuðinn í röð og stendur nú í 104,8 stigum. Hefur vísitalan ekki mælst hærri frá því í ágúst á síðasta ári. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Samkvæmt könnun Bloomberg meðal greiningaraðila var búist við lækkun hennar í 103,5 stig úr 104,1 stigum í febrúar.

„Staða fyrirtækja í Þýskalandi virðist því vera sterk um þessar mundir þrátt fyrir hækkandi olíuverð að undanförnu og mikla styrkingu evrunnar síðustu misserin. Bendir það enn fremur til þess að þýska hagkerfið, stærsta hagkerfi evrusvæðisins, hafi enn sem komið er reitt vel af þrátt fyrir versnandi hagvaxtarhorfur víða um heim. Dregur það frekar úr líkum á því að Seðlabanki Evrópu lækki stýrivexti sína í bráð, en þeir standa nú í 4,0%,“ segir í Morgunkorni Glitnis.