Væntingavísitalan í Þýskalandi hefur nú náð fimm ára lágmarki og mælist nú aðeins 1,5 stig í september.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC en væntingavísitalan var 2,1 stig í ágúst.

Þá er rétt að geta þess að hagvöxtur í Þýskalandi dróst saman um 0,5% á öðrum ársfjórðungi þessa árs og verði svo á þriðja ársfjórðungi er formlegur samdráttur í þýsku efnahagslífi.

BBC hefur eftir greiningaraðilum að hækkandi matvæla- og eldsneytisverð dragi helst úr væntingum neytenda í Þýskalandi. Þá hefur verðbólga í landinu ekki verið hærri í 15 ár auk þess sem hjaðnað hefur á veltu á fasteignamarkaði. Það er því ýmislegt sem týnist til.

GFK, fyrirtækið sem mælir neytendavísitöluna, tekur undir þetta í kynningu skýrslunnar og bætir því við að sterk evra síðustu misseri geri útflutningsgreinum erfitt fyrir auk þess sem dregið hefur úr neyslu innanlands.