Vodafone vinnur að undirbúningi vegna 4G-væðingar stærstu sumarhúsasvæða landsins. Fram kemur í tilkynningu að tæknimenn á vegum fyrirtækisins hafi á undanförnum vikum unnið að uppsetningu á viðeigandi sendibúnaði og ráðgert er að hleypa þjónustunni af stokkunum á stærstu sumarhúsasvæðum Suðurlands og Vesturlands í vikunni, áður en stærsta ferðahelgi sumarsins rennur upp.

Sumarhúsanotendur í Skorradal og Grímsnesi eru meðal þeirra sem munu geta notið þjónustunnar, en 4G þjónustusvæði Vodafone mun svo stækka jafnt og þétt á komandi misserum.  Í fyrstu verður áherslan á svæði þar sem hefðbundin netþjónusta er takmörkuð, enda er þörfin  og spurn eftir 4G þjónustunni mest þar. Sú aðferðafræði byggir á reynslu Vodafone í Evrópu, en þar hefur gefist vel að veita fyrst 4G netþjónustu á illa nettengdum svæðum. Viðtökur við þjónustunni þar hafa verið mjög góðar, enda felur tæknin í sér netbyltingu fyrir fólk sem áður hafði ekki aðgang að háhraðanettengingum.