Vodafone átti hagstæðasta tilboðið um stafræna sjónvarpsdreifingu efnis Ríkisútvarpsins (RÚV). Tíu dagar munu líða þar til tekin verður ákvörðun um það hvort gengið verði að tilboðinu.

Fram kemur í tilkynningu frá Ríkiskaupum, fyrir hönd RÚV, að tilboð Fjarskipta (Vodafone) hafi verið metið það hagstæðasta fyrir kaupanda samkvæmt matslíkani útboðslýsingar.

Orðrétt segir:

„Þegar um er að ræða innkaupaferli sem lýkur með vali kaupanda á tilboði skulu líða a.m.k. 10 dagar frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt, sbr. 76. gr. laga 84/2007. Að loknum þessum a.m.k. 10 dögum og að öllu óbreyttu, geta Ríkiskaup f.h. Ríkisútvarpsins samþykkt endanlega tilboð Fjarskipta. Verði gerður samningur við Fjarskipti ehf. á gundvelli þessa tilboðs er gert ráð fyrir að það hafi ekki áhrif á heildarafkomu Ríkisútvarpsins.“