3G þjónustu Vodafone verður hleypt af stokkunum um helgina og samhliða henni verður boðið upp á möguleika til að hlaða niður mikið magn af erlendri tónlist með löglegum hætti. Auk þess að bjóða upp á gríðarlegt magn af tónlist í farsímann mun Vodafone leggja áherslu á þráðlaus 3G netsamskipti og bjóða fólki aðgang að netinu innan dyra og utan um allt þjónustusvæðið með afar einföldum hætti.

Í fréttattilkynningu frá Vodafone segir að tónlistarþjónusta Vodafone marki tímamót, því í fyrsta sinn geta Íslendingar keypt erlenda tónlist rafrænt með löglegum hætti. Hingað til hefur slíkt ekki verið hægt en vonir standa til að þjónustan dragi verulega úr ólöglegu niðurhali á erlendri tónlist. Gríðarlegt magn tónlistar verður í boði, því með samningum við stærstu tónlistarútgefendur heims hefur Vodafone tryggt aðgengi viðskiptavina sinna að hátt í milljón lögum, sem hægt er að hala niður í farsímann til eignar. Til viðbótar geta notendur eignast vinsælustu íslensku tónlistina með niðurhali í farsímann sinn. Gegn inngöngu í tónlistarklúbb Vodafone þurfa viðskiptavinir ekki að greiða fyrir niðurhal á íslenskri tónlist en hvert erlent lag kostar 99 kr.

Auk niðurhals á tónlist hefur þráðlaust 3G netsamband notið mikilla vinsælda víða um heim og mikil spurn hefur verið eftir 3G módemi fyrir fartölvur, sem Vodafone mun bjóða upp á hér á landi og nýtist notendum einnig á ferðalögum erlendis. Um er að ræða lítið tæki sem einfaldlega er stungið í samband við tölvu sem kemst samstundis í netsamband!

Í tilkynningunni er haft eftir árna Pétri Jónssyni forstjóra Vodafone: “Við höfum mikla trú á þjónustunni enda sýnir reynsla Vodafone um allan heim að þetta eru þær 3G þjónustuleiðir sem njóta mestra vinsælda. Við erum stolt af því að vera fyrst allra hér á landi að bjóða löglegt niðurhal á erlendri tónlist og búumst við góðum viðtökum. Þjónustuleiðirnar undirstrika styrkleika Vodafone og það alþjóðlega samstarf sem við eigum í. Samningar við tónlistarútgefendur eins og Sony, EMI, Universal og Warner hefðu t.d. aldrei nást án slíks samstarfs.”