Í dag verður 400 reiðhjólum dreift í 13 landsbyggðarsveitarfélögum, þar sem þeim er ætlað að nýtast sem ókeypis farkostur fyrir bæjarbúa og ferðafólk í allt sumar. Reiðhjólunum verður komið fyrir við sundstaði í hverjum bæ og verða aðgengileg til notkunar á opnunartíma sundlauga.

Vodafone hefur frumkvæði að þessu verkefni og hefur unnið með sveitarfélögunum að framkvæmd þess undanfarna mánuði, samkvæmt fréttatilkynningu frá Vodafone. Tryggingamiðstöðin útvegar reiðhjólahjálma til notkunar með hjólunum, og fást þeir afhentir í afgreiðslu sundstaðanna.

Reiðhjólunum verður dreift á Akureyri, Akranesi, Dalvík, Egilsstöðum, Ísafirði, Neskaupsstað, Sauðárkróki, Selfossi og í Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum, Borgarnesi, Grindavík og Húsavík.

„Markmið Vodafone með framtakinu er að hvetja til hollrar og skemmtilegrar hreyfingar yfir sumartímann og auðvelda fólki að ferðast innanbæjar á umræddum stöðum. Starfsmenn sveitarfélagana munu fylgjast með hjólunum á hverjum stað og annast nauðsynlegar viðgerðir,“ segir í fréttatilkynningu frá Vodafone.