Í tilkynningu frá forsvarsmanni Fjarskipta ehf. segir að félagið muni grípa til fullra varna við lögbanni Sýslumanns við sýningum fyrirtækisins á efni frá SkjáEinum með ‘Tímavél’ og ‘Frelsi’. Viðskiptablaðið fjallaði um lögbannið fyrr í dag.

Tilkynning Fjarskipta segir meðal annars:

Forsaga þessa máls er sú að Fjarskipti hf. hefur fram til þessa neitað kröfum Símans um að hætta að bjóða viðskiptavinum Vodafone Sjónvarps tímavél  á SkjáEinum með að leiðarljósi að standa vörð um aðgang neytenda að tímvél sem sjálfsagðri sjónvarpsþjónustu.

Fjarskipti hf. byggja á að gildandi samningur milli félaganna veiti skýra heimild til miðlunar efnisins. Af þessari ástæðu telur félagið að ekki sé um að ræða nein brot á höfundarétti.

Auk þess telja Fjarskipti að afskipti Símans séu samkeppnishamlandi á fjarskiptamarkaði:

Jafnframt er það mat Fjarskipta hf. að aðgerðir Símans, sem markaðsráðandi aðila á fjarskiptamarkaði, séu samkeppnishamlandi og í andstöðu við bæði samkeppnis- og fjölmiðlalög.

Þess má geta að bæði Samkeppniseftirlitið og Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) eru með aðgerðir Símans til rannsóknar.