GSM samband er nú í fyrsta sinn komið á stór svæði á Landmannaafrétti, meðal annars í Landmannalaugum, á Veiðivatnasvæðinu og Fjallabaksleið nyrðri.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.

Þar segir að sambandið hafi komist á fyrir helgi þegar tæknimenn Vodafone gangsettu nýjan langdrægan GSM sendi á svæðinu, en sendirinn styrkir einnig GSM samband á vestanverðum Vatnajökli og Mýrdalsjökli.

Vodafone segir þessa þjónustu vera byltingu fyrir ferðafólk á svæðinu, en á hverju ári dveljast um hundrað þúsund manns í lengri eða skemmri tíma í Landmannalaugum og nágrenni.

„Rétt er að taka fram, að þótt almenn GSM þjónusta á svæðinu sé eingöngu í boði fyrir viðskiptavini Vodafone geta viðskiptavinir annarra símfyrirtækja hringt neyðarsímtöl í 112,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni kemur fram að GSM þjónustusvæði Vodafone hefur stækkað mikið á undanförnum mánuðum og er nú það stærsta sinnar tegundar á Íslandi.

„Á þessu ári hafa um 70 nýir GSM sendar verið gangsettir víða um land og meðal annars á fjölmörgum stöðum á hálendinu sem nú er að stærstum hluta komið í GSM samband.  Fyrirtækið mun halda uppbyggingu sinni áfram og mun á næstu mánuðum meðal annars vinna að verkefnum fyrir Fjarskiptasjóð, sem er ætlað að tryggja á GSM þjónustu á þjóðvegum víða um land,“ segir í tilkynningunni.