Síðan viðskipti hófust í kauphöllinni í morgun hefur gengi bréfa Fjarskipta, móðurfélags Vodafone hækkað töluvert og hafa jafnfframt mestu viðskiptin verið með bréf félagsins. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá eftir lokun markaða í gær þá samþykkti Samkeppniseftirlitið, með skilyrðum þó, kaup Vodafone á ljósvakamiðlum 365 miðla.

Þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa Vodafone hækkað um 3,73% í 361 milljón króna viðskiptum og standa bréf félagsins nú í 66,70 krónum. Á sama tíma hefur gengi Símans hins vegar lækkað mest í kauphöllinni í morgun, eða um 0,50% í 253 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfanna nú 3,96 krónur.

Fyrir utan Símann er N1 eina félagið sem hefur lækkað í verði í viðskiptum morgunsins, en gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 0,42% í 298 milljón króna viðskiptum og er það nú komið niður í 119,00 krónur. Það sem af er degi hefur úrvalsvísitalan hækkað um 0,02% vegna viðskiptanna en ekki hafa enn verið nein viðskipti með þónokkur félög, en fjögur önnur en Fjarskipti hafa hækkað í virði.