*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 7. nóvember 2017 12:41

Vodafone hækkar um 4,56%

Öll félög nema tvö hækka í virði en annan daginn í röð virðist markaðurinn anda léttar vegna slita stjórnarmyndunarviðræðna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjarskipti, móðurfélag Vodafone hefur hækkað um 4,56% í 356 milljón króna viðskiptum það sem af er degi og er gengi bréfa félagsins nú 65,40 krónur í kauphöll Nasdaq Iceland.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær virðist sem markaðir hafi andað léttar í kjölfar þess að upplýst var um að stjórnarmyndunarviðræður vinstriflokkanna og Framsóknarflokksins runnu út um þúfur.

Önnur félög sem hafa hækkað töluvert í verði það sem af er morgni má nefna Skeljung sem hefur hækkað um 2,24% í 67 milljón króna viðskiptum, og Vís sem hefur hækkað um 2,12% en reyndar í einungis 18 milljón króna viðskiptum.

Öll félög hafa hækkað í verði þegar þetta er skrifað, fyrir utan Icelandair og Marel sem lækkuðu einnig í gær. Nemur hækkun Úrvalsvísitölunnar 0,24%, en mestu viðskiptin hafa verið með bréf Reita og Símans, sem hafa hækkað um 0,30,% annars vegar og 1,52% hins vegar.

Stikkorð: Marel kauphöllin Icelandair Síminn Vodafone