Hagnaður Vodafone nam 236 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sem er 75% aukning frá fyrsta fjórðungi 2014. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins sem birtist í dag. Tekjur samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi 2015 námu 3,2 milljörðum króna og hækkuðu um 2% frá sama ársfjórðungi 2014.

Tekjur af vörusölu jukust um 72 m.kr. eða 26% á milli ársfjórðunga og tekjur af interneti jukust um 37 milljónir á ársfjórðungnum eða 5%. Sjónvarpstekjur jukust um 10 milljónir eða 2% á ársfjórðungnum og tekjur af farsíma námu rúmum milljarði og lækkuðu um 5 milljónir á milli fjórðunga. Aðrar tekjur drógust saman um 6% á milli ársfjórðunga. Rekstrarkostnaður nam 1.116 m.kr. á tímabilinu og lækkaði um 31 m.kr. frá sama ársfjórðungi 2014.

„Árið 2015 fer vel af stað hjá félaginu með bestu afkomu fyrsta fjórðungs í sögu félagsins,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri félagsins í tilkynningu. „Tekjur vaxa á sama tíma og rekstrarkostnaður, afskriftir og fjármagnsgjöld lækka sem skilar 75% aukningu hagnaðar á milli ára.“