Vodafone hefur hafið uppsetningu á GSM sendum á 40 stöðum á landinu og mun frá og með haustinu eingöngu notast við eigið GSM dreifikerfi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone en hingað til hefur Vodafone leigt aðgang að GSM kerfi Símans á völdum svæðum á landinu en hættir því í haust.

Fram kemur í tilkynningunni að Vodafone og Síminn munu eftir sem áður nýta GSM dreifikerfi hvort annars á svæðum þar Fjarskiptasjóður, f.h. hins opinbera, hefur greitt fyrir uppsetninguna, m.a. í öryggisskyni.

„Verkefnið markar mikil tímamót og tryggir enn betur en áður samkeppnishæfni Vodafone, sem hefur leitt samkeppni á fjarskiptamarkaðnum í 11 ár,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að á síðasta ári settu tæknimenn Vodafone upp 126 GSM senda, sem m.a. tryggðu þjónustu á svæðum sem áður voru sambandslaus, s.s. á hálendinu og langt á haf út.

„Með uppsetningunni nú hefur Vodafone tekið lokaskrefið í uppbyggingu á dreifikerfi sem stendur öðrum GSM kerfum á Íslandi tæknilega framar, því auk gríðarlegrar stækkunar á dreifikerfi Vodafone hefur eldri sendum verið skipt út fyrir nýja. Þannig hefur viðskiptavinum verið tryggð áreiðanlegasta og afkastamesta GSM þjónustan á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.