Á aðalfundi Fjarskipta hf. þann 26. mars 2014 var samþykkt að heimila félaginu kaup á allt að 10% af eigin hlutafé þ.e. að hámarki 34.076.500 hlutum. Hver hlutur er 10 kr. að nafnvirði og gildir heimildin í 18 mánuði frá samþykkt hennar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Stjórn Fjarskipta hf. hefur á grundvelli fyrrgreindrar samþykktar tekið ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar um kaup á eigin bréfum og er markmið áætlunarinnar að lækka útgefið hlutafé félagsins. Endurkaupin munu nema að hámarki 9.400.000 hlutum eða sem nemur 2,8% af útgefnum hlutum í félaginu, en þó ekki meira en 300.000.000 kr. að kaupverði. Áætlunin mun gilda til 28. febrúar 2015.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hf. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar og taka allar ákvarðandir tengdar framkvæmd hennar, kaup og tímasetningu þeirra, óháð félaginu.

Kaupin verða framkvæmd í áföngum með þeim skilyrðum að kaup hvers dags muni að hámarki nema 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands í júlí 2014, en það jafngildir að dagleg kaup mega að hámarki vera 189.367 hlutir.