Verð á þjónustu Vodafone, að frátöldu verði á Vodafone Frelsi, hækkar um 4,4% þann 1. júní næstkomandi samvæmt ákvörðun framkvæmdarstjórnar félagsins.

Verðskrá fyrir Frelsi breytist ekki né heldur þær sparnaðarleiðir sem viðskiptavinum Vodafone stendur til boða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.

„Ástæður verðbreytinganna eru kostnaðarhækkanir í rekstri en vísitala neysluverðs hefur hækkað um 12,4% frá því verðskrá Vodafone var hækkuð síðast. Launaskrið hefur á sama tíma verið 10% og aðföng hafa hækkað um 20–30%, meðal annars  vegna gengisþróunnar,“ segir í tilkynningunni.

Að höfðu samráði við talsmann neytenda verða verðbreytingarnar tilkynntar  viðskiptavinum Vodafone með SMS-skilaboðum til einstaklinga sem hlut eiga að máli, fréttatilkynningu til fjölmiðla og frétt á vef fyrirtækisins.