Samningar hafa tekist um kaup Vodafone á símaþjónustu fyrirtækisins Fjölnets á Sauðárkróki. Um er að ræða allan tækjabúnað sem tengist símrekstri Fjölnets auk þess sem Vodafone mun yfirtaka fyrirliggjandi viðskiptasamninga um símþjónustu. Vodafone mun þ.a.l. þjónusta m.a. Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfyrirtæki þess, Sparisjóð Skagafjarðar, Sveitarfélagið Skagafjörð, Byggðastofnun, og ýmsa fleiri aðila að því er kemur fram í frétt þeirra.

Snorri Styrkársson, framkvæmdastjóri Fjölnets, segir að salan skapi ýmis tækifæri fyrir Fjölnet sem nú muni einbeita sér að rekstri kerfisveitu; internetþjónustu ásamt tengdum verkefnum. Á síðasta ári tók Gagnaveita Skagafjarðar ehf.  við rekstri ljósleiðaranets Fjölnets í Skagafirði.

Gestur G. Gestsson, framkvæmdastjóri hjá Vodafone, segir samninginn vera eðlilegt framhald af auknum umsvifum Vodafone í Skagafirði á þessu ári. ?Við fengum öflugan umboðsaðila á Sauðárkróki til liðs við okkur í vetur, þegar raftækjaverslunin Rafsjá tók það hlutverk að sér, auk þess sem starfsmenn Vodafone hafa heimsótt flest heimili í Skagafirði með nýjan stafrænan myndlykil. Þeir hafa fengið frábærar viðtökur hjá Skagfirðingum, sem hafa fagnað uppbyggingu á Digital Ísland dreifikerfinu okkar, sem meðal annars er notað við dreifingu á dagskrá Stöðvar 2.?

Vodafone hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem öflugur alhliða þjónustuaðili fyrir fyrirtæki og stofnanir. Sú staðreynd að mörg af öflugustu fyrirtækjum og sveitarfélögum landsins skuli ítrekað velja Vodafone til samstarfs segi sína sögu um áreiðanleika fyrirtækisins og gæði þjónustunnar. Meðal þeirra sem valið hafa Vodafone eru Actavis, Icelandair, Landsbanki Íslands, Reykjavíkurborg og Landspítali ? háskólasjúkrahús. Ótal mörg lítil og meðalstór fyrirtæki hafa einnig sé hag sínum best borgið með því að skipta við Vodafone.