Gildistími endurkaupaáætlunar Fjarskipta hf., betur þekkt sem Vodafone, sem tilkynnt var um í Kauphöll Íslands hf. þann 1. júní 2016, er liðinn.

Fjarskipti keyptu samtals 6.651.341 eigin hluti samkvæmt áætluninni eða sem nemur 2,44% af útgefnum hlutum í félaginu og nemur heildarkaupverð þeirra 299.999.968 kr. er kemur fram í tilkynningu.

Tilkynnt var um framkvæmd endurkaupaáætlunar Fjarskipta hf. með tilkynningu til Kauphallar Íslands hf. þann 1. júní 2016. Samkvæmt áætluninni máttu endurkaup félagsins á eigin bréfum nema að hámarki 6.734.000 hlutum eða sem nemur 2,50% af útgefnum hlutum í félaginu, þó ekki meira en 300.000.000 kr. að kaupverði. Endurkaupaáætlunin var í gildi til 30. september 2016 nema ef kaupum samkvæmt henni yrði lokið áður. Félagið nýtti allar heimildir sínar samkvæmt áætluninni að frádregnum 32 krónum.

Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar var í samræmi við VIII. kafla laga um hlutafélög nr. 2/1995 og viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005, sem ber heitið "Viðskipti með eigin bréf í endurkaupaáætlunum og verðjöfnun fjármálagerninga."