Viðskiptavinir Vodafone á Íslandi munu frá og með 1. janúar greiða mun minna fyrir símtöl í útlöndum en hingað til. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Vodafone á Íslandi.

Viðskiptavinir félagsins munu þá njóta kjara sem ákveðin voru í reglugerð Evrópusambandsins um verð á reikiþjónustu í aðildarlöndum sambandsins, þótt reglugerðin hafi ekki fengið lagagildi á Íslandi.  Auk þess að gilda í löndum Evrópusambandsins mun sama verð gilda í Sviss, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Lichtenstein.

Vodafone hefur frá því reglugerð Evrópusambandsins var samþykkt unnið að því, að tryggja sínum viðskiptavinum sömu kjör og íbúum aðildarlandanna.  Reglugerðin kveður á um hámarks heildsöluverð á þjónustunni milli fjarskiptafyrirtækja og hámarks smásöluverð til neytenda, en evrópskum fjarskiptafyrirtækjum er hins vegar ekki verið skylt að selja þjónustu sína á umræddu verði til símafyrirtækja utan Evrópusambandsins. Þess vegna hefur ekki verið hægt að bjóða íslenskum farsímanotendum bestu möguleg kjör á ferðalögum sínum um Evrópu fyrr en nú.

Rétt er að benda á, að þrátt fyrir breytinguna getur verið hagkvæmara fyrir viðskiptavini að nota áfram þjónustuleiðina Vodafone Passport sem stendur öllum viðskiptavinum Vodafone til boða.