Vodafone mun framvegis veita þjónustu fyrirtækisins við heimili yfir ljósleiðaranet Gagnaveitu Reykjavíkur. Vodafone er stærsti einstaki aðilinn sem samið hefur verið við um aðgang að ljósleiðaranetinu segir í frétt OR.

Vodafone mun bjóða tengdum heimilum síma, internet og sjónvarpsþjónustu yfir netið en nú þegar veita Hive, Hringiðan, Samfélagið og FastTV þjónustu yfir ljósleiðaranet Gagnaveitu Reykjavíkur.

Nú um áramótin tók nýtt hlutafélag, Gagnaveita Reykjavíkur ehf., við rekstri ljósleiðaranetsins, sem Orkuveita Reykjavíkur hefur byggt upp síðustu ár. Gagnaveitan er að fullu í eigu Orkuveitunnar. Markmiðið með stofnun sérstaks fyrirtækis var að skerpa skilin á milli fjarskiptarekstursins og reksturs annarra veitna. Stærsta verkefni Gagnaveitu Reykjavíkur er áframhaldandi ljósleiðaravæðing heimila. Samkomulag hefur verið gert við um tug sveitarstjórna um ljósleiðaraleiðaratengingu heimila og ná áformin nú til um helmings þjóðarinnar segir í frétt OR.