Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt Vodafone og Nova heimild til að samnýta tíðniheimildir félaganna fyrir veitingu 2G, 3G og 4G þjónustu, að því er fram kemur á vef PFS.

Vodafone og Nova hyggja á stofnun félags sem mun hafa með höndum eignarhald, uppbyggingu og þróun dreifikerfis fyrir alla almenna farsímaþjónustu félaganna. Ætlunin með samstarfinu er þríþætt; að vinna sameiginlega að innleiðingu heildstæðs dreifikerfis á landsvísu, að nýta tækniframfarir til að ná fram hagræðingu í fjárfestingar- og rekstrarliðum og að byggja upp eitt heilsteypt landsdekkandi dreifikerfi fyrir farsíma- og netþjónustu.

Samnýting tíðniheimilda er ein meginforsenda samstarfsins og því óskuðu félögin eftir heimild þess efnis frá Póst- og fjarskiptastofnun, sem nú hefur verið veitt. Stofnunin telur að almennt séð verði samstarf Vodafone og Nova jákvætt fyrir íslenskan fjarskiptamarkað. Taka ber fram að samstarf félaganna er jafnframt háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og hafa félögin óskað eftir því.