Fjarskiptafélögin Vodafone og Nova hafa ákveðið að ganga til formlegra viðræðna um stofnun nýs rekstrarfélags, sem reka mun sameinað farsímadreifikerfi félaganna tveggja. Núverandi dreifikerfi félaganna verða lögð saman í eitt alhliða farsímadreifikerfi sem verður í eigu hins nýja rekstrarfélags. Vodafone og Nova munu leggja jafnt stofnframlag til rekstrarfélagsins og eiga í því jafnan hlut.

Í tilkynningu segir að með sameiningu dreifikerfanna skapist mikil tækifæri til stækkunar og verulegt hagræði náist í fjárfestingum og rekstri. Einnig verði þétting og uppbygging kerfisins hraðari en annars væri mögulegt.

Undirbúningsvinna vegna stofnunar félagsins hefur farið fram um nokkra hríð með vitneskju Samkeppniseftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Vodafone og Nova munu óska eftir heimild  þessara aðila til að stofna nýja rekstrarfélagið og að þeim fengnum mun félagið taka til starfa. Vonir standa til að það verði á fyrri hluta ársins 2014.

Engin breyting verður á samkeppni félaganna á fjarskiptamarkaði, þar sem samreksturinn snýr einungis að tæknilegum þáttum í rekstri þeirra. Reynsla annarra landa af sambærilegum samrekstri er góð, til dæmis í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi.

Vodafone telur að fjárfestingakostnaður fyrirtækisins vegna farsímakerfa  geti lækkað um allt að 25%. Þá verður farsímakerfið öflugra en annars væri mögulegt og þjónusta við farsímanotendur betri. Vodafone segir að stofnun hins nýja rekstrarfélags hafi engin áhrif á áður útgefnar horfur í reksti Vodafone fyrir árið 2013, hvorki EBITDA hagnað né fjárfestingahlutfall.