Síminn og Vodafone hafa bæði samið við Verne Global um uppsetningu á tengibúnaði í gagnaveri þess síðastnefnda í Reykjanesbæ. Tengibúnaðurinn veitir íslenskum og erlendum fyrirtækjum sem stunda viðskipti á Íslandi aukna tengimöguleika.

„Uppsetning tenginga Vodafone í gagnaveri Verne Global er hluti af stefnu okkar um að efla gagnaflutningsþjónustu okkar enn frekar til að mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu tengdri örum vexti gagnavera á Íslandi," segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone á Íslandi í tilefni af samningnum.

„Síminn hefur í rúma öld rekið helsta fjarskiptakerfi landsins og getur því boðið viðskiptavinum Verne Global upp á öruggar og áreiðanlegar tengingar innanlands,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Tengingarnar hafi mikla þýðingu

Dominic Ward, aðstoðarframkvæmdastjóri viðskiptalausna hjá Verne, segir í samtali við Viðskiptablaðið að samningurinn hafi mikla þýðingu fyrir félagið. „Tengingar sem Vodafone og Síminn bjóða í gagnaveri Verne Global tryggja viðskiptavinum aðgang að öflugum tengingum sem uppfylla þeirra kröfur.“

Ward vill hins vegar ekki gefa upp hversu háar fjárhæðir eru í spilinu og ber við trúnaði gagnvart viðsemjendum sínum. Samningarnir bæta Símanum og Vodafone í hóp viðskiptavina Verne Global. Þar fyrir eru fyrirtæki á borð við Colt, British Telecom, Datapipe BMW, RMS, CCP Games, RVX Studios og fleiri. Þá er talsvert af netgjaldmiðlinum Bitcoin búinn til í gagnaveri Verne Global í Reykjanesbæ.

Er annt um að vera óháðir fjarskiptafyrirtækjunum

Ward segir að það sé kappsmál fyrir Verne að koma á tengingum frá fjölbreyttum aðilum inni í gagnaveri félagsins til að gera það óháð hverju og einu þeirra. Með því sé gagnaverið hlutlaust gagnvart fjarskiptafyrirtækjunum eða „carrier-neutral.“

„Verne Global er miðpunktur tengimöguleika, bæði í innlendu og alþjóðlegu samhengi. Það að bæta við fjarskiptaaðilum og gagnatengingum bætir við þá möguleika sem viðskiptavinir félagsins hafa. Við erum algjörlega óháð fjarskiptafyrirtækjunum í gagnaverinu og það er það sem viðskiptavinir okkar vilja,“ segir Ward.

Mikil sókn hefur verið hjá Verne Global undanfarið, en í janúar var til að mynda greint frá því að hlutafé félagsins hefði verið aukið um 98 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 13 milljarða íslenskra króna.