*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 14. mars 2017 11:24

Vodafone rýkur upp

Gengi hlutabréfa Vodafone hefur hækkað um 5% þegar þetta er ritað í 346 milljón króna viðskiptum, fyrr í dag var tilkynnt um kaup Vodafone á 365.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gengi hlutabréfa Vodafone hefur hækkað um 5% þegar þetta er ritað í 346 milljón króna viðskiptum. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,15% það sem af er degi.

Fyrr í dag var gengið frá kaupum Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Kaupverð er á bilinu 3.125-3.275 milljónir króna og mun endanlegt kaupverð ráðast af rekstrarárangri hins keypta fram að afhendingu. Kaupverð verður greitt annars vegar með 32.380.952 hlutum í Fjarskiptum á genginu 52,5 krónur á hlut, og hins vegar 1.425-1.575 milljónum króna með reiðufé. Einnig yfirtekur kaupandi vaxtaberandi skuldir að fjárhæð 4.600 milljónir króna.

Gengi hlutabréfa allra skráðra félaga hefur hækkað eða staðið í stað. Vodafone hefur hækkað mest, en einnig hefur gengi hlutabréfa Sjóva hækkað um 3,31% í 372 milljón króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa TM hefur jafnframt hækkað um 2,62% í tiltölulega litlum viðksiptum.

 

Stikkorð: Vodafone Kauphöllin hækkanir kaup markaðurinn