Vodafone fagnar aðgerðum Samkeppniseftirlitsins, enda mun rannsókn á fjarskiptamarkaðnum taka af allan vafa um eðlilega og heiðarlega viðskiptahætti fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone vegna aðgerða Samkeppniseftirlitsins, sem í morgun gerði húsleit í höfuðstöðvum Vodafone.

Í tilkynningunni kemur fram að virk samkeppni á fjarskiptamarkaði sé grundvallarforsenda í rekstri Vodafone.

„Án slíkrar samkeppni væri fyrirtækið ekki til og rannsókn Samkeppniseftirlitsins mun staðfesta að fjarskiptafyrirtækin á Íslandi eiga í harðri samkeppni,“ segir í tilkynningunni.

„Starfsfólk Vodafone mun aðstoða fulltrúa Samkeppniseftirlitsins á allan þann hátt sem óskað verður eftir og leggja sitt að mörkum svo eftirlitið geti unnið sitt starf hratt og vel.“

Þá kemur fram að aðgerðir Samkeppniseftirlitsins munu ekki trufla starfsemi Vodafone á nokkurn hátt.