Vodafone hefur selt Neyðarlínunni 12 fjarskiptahús og 16 fjarskiptamöstur sem ýmist eru staðsett á hálendinu eða í dreifbýli víða um land. Kaupin styrkja TETRA fjarskiptakerfi fyrir neyðar- og viðbragðsaðila. Um er að ræða búnað og tæki sem Vodafone keypti nýverið af Fjarska, fjarskiptafyrirtæki í eigu Landsvirkjunar, eftir að Fjarski ákvað að draga sig út úr samkeppnisrekstri og sinna eingöngu öryggisfjarskiptaþjónustu vegna raforkukerfisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Neyðarlínunni og Vodafone.

Mun Vodafone annast gagnaflutninga fyrir Neyðarlínuna til og frá umræddum stöðum. Vodafone hefur séð um alla almenna fjarskiptaþjónustu við Neyðarlínuna undanfarin ár.

"Samstarf okkar við Neyðarlínuna undanfarin ár hefur verið frábært í alla staði. Samstarfið hefur orðið til þess að bæði fjarskiptaþjónusta við almenning og öryggisfjarskiptaþjónusta við viðbragðs- og björgunaraðila hefur stóreflst og samningurinn nú er staðfesting á því, að við ætlum að halda áfram á sömu braut. Við höfum einnig litið svo á, að það sé mikill gæðastimpill fyrir Vodafone að eins mikilvægur aðili og Neyðarlínan skuli velja að eiga samstarf við okkur umfram aðra, " segir Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone.