Bandaríska fjarskiptafyrirtækið Verizon ætlar að kaupa 45% hlut Vodafone í sameiginlegu fyrirtæki, Verizon Wireless sem er eitt af stærstu farsímafyrirtækjum Bandaríkjanna. Kaupverðið nemur 130 milljörðum dala, jafnvirði 15 þúsund milljörðum íslenskra króna. Þetta ku vera þriðju stærstu fyrirtækjakaup sem um getur. Greitt verður með reiðufé og hlutabréfum.

Reuters-fréttastofan segir að líklega verði greint formlega frá kaupunum eftir lokun markaða í Bretlandi í dag. Eftir talsverðu er að slægjast fyrir Verizon að sögn Reuters sem bendir á að reksturinn vestanhafs þyki mikið djásn í samstæðu Vodafone. Reuters segir m.a. um málið að eftir viðskiptin minnki umsvif Vodafone umtalsvert í kjölfarið þar sem einblínt verði á kjarnarekstur. Þó er gert ráð fyrir því að eitthvað af peningunum sem munu skila sér í hús verði notaður til kaupa á litlum fyrirtækjum.